Reynsla föður

Svona upplifði einn pabbinn fæðingar sinna barna. Þessi pabbi er fæddur 1980 og er sölumaður.

Árið 2002 er ég í námi í Reykjavík og á von á barni um mánaðarmótin mars-apríl og er mjög spenntur. Í mæðraskoðun og á námskeiði fyrir verðandi foreldra mæti ég opinn og fróðleiksfús, skima samviskusamlega yfir þau blöð sem okkur eru afhent en les engar bækur um meðgöngu og fæðingar því ég tel mig ekki hafa tíma og lít reyndar svo á að feður hafi litla þörf á því. Eitthvað er að loftinu á námskeiðunum því þar sækir að mér ofboðsleg syfja og ég geispa þar út í eitt og er ítrekað alveg að dotta.

Eftir að hafa farið tvær vikur fram yfir er konan mín gangsett á Landsspítalanum að kvöldi til. Ég er sendur heim að sofa því ekkert á að gerast næstu tímana. Ég bý rétt hjá svo ég yrði fljótur á milli. Ég get ekkert farið að sofa, það er bar hinum megin við götuna sem gæti róað taugarnar en ég ákveð að fara ekki þangað og fer í tölvuleik. Kannski kjánalegt en virkaði samt bara ágætlega, fæ SMS frá konunni minni um miðja nóttina um að drífa mig á spítalann, sem ég geri. Þar er hún ein á fæðingarstofu og engist um og vonar að stutt sé eftir hjá sér.

Við taka nokkrir klukkutímar þar sem ég stend við hlið hennar þar sem hún lýsir því af angist hversu mikið hún sé að farast og öskrar og klípur hendina á mér fast annað slagið. Glaðloftið á spítalanum er verkjameðferðin sem hún notar, hún biður um mænudeyfingu á tímapunkti en þá er það orðið of seint.
Það eina sem ég geri er að vera jákvæður og rólegur og hvetjandi fyrir hana, bæði á meðan og eftirá er ég mjög ánægður með mig. Allt gengur rosa vel, svona skilst okkur að þetta eigi að ganga, konan er búin að gleyma nánast allri vanlíðan sem fylgdi bæði meðgöngu og fæðingu um leið og hún fær dóttur okkar í fangið. Við erum svo í Hreiðrinu á Landsspítalanum næstu nótt og líkar mjög vel, erum bara þarna þrjú í rólegheitunum, litla fjölskyldan.

Árið 2008 búum við á Akureyri og eigum von á barni seinni part febrúar-mánaðar, konan verður hrifin af hugmyndinni um heimafæðingu og ræðir það við ljósmóður í mæðraskoðun. Það er sama ljósmóðir og tók á móti hjá okkur á Landsspítalanum, þá sem nemi. Hún tekur vel í hugmyndir okkar um heimafæðingu og hittir okkur heima í mæðraskoðun í síðustu skiptin fyrir fæðinguna. Við fáum hjá henni fæðingalaug sem er stór og góð, vatns- og loftdæla fylgdu með. Ég er jafnvel enn kærulausari en áður með lestur efnis um fæðingar fyrir þessa fæðingu, enda búinn að upplifa þetta núna.

Mörg samtöl við ættingja og kunningja í aðdraganda fæðingarinnar snúast um að fætt verði heima. Fólk virðist almennt opið fyrir hugmyndinni en finnst þetta samt forvitnilegt. Þær litlu mótlætisraddir sem ég heyrði lét ég alveg sem vind um eyru þjóta því mér fannst þetta alveg frábær hugmynd, sjúkrahús væru fyrir sjúklinga. Heilbrigð manneskja yrði bara veik á að fara þangað.

Við fáum aftur að bíða nokkrum dögum lengur eftir fæðingardeginum en svo loks gerist það aðfaranótt 3. mars að konan byrjar að æla og upplifir mikla vanlíðan. Við látum ljósuna okkar vita og hún ákveður að líta á okkur. Hún sér að konan mín er að fara af stað í fæðingu. Við tekur mjög svipað ferli og þegar ég
mæti á Landspítalann um nóttina hjá fyrsta barni okkar. Ég er þarna til halds og trausts. Græja fæðingalaugina sem notaðist lítið. Nú notaðist hún mest við TENS-tæki sem hún leigði á Kristnesspítala. Hún engist um af kvölum í nokkrar klukkustundir á meðan þetta gengur yfir. Tók eitthvað lengri tíma en fyrri fæðingin, barnið var með sverara höfuðmál og í höfuðstöðu sem tafði fyrir. Virkaði samt styttri en sú fyrri, sennilega af því að maður var meira með í öllu sem var að gerast en ekkert að bíða. Önnur yndisleg fæðing að baki
og alveg frábært að vera heima hjá sér fyrir, á meðan og eftir fæðingu.

Um miðjan október 2010 eigum við svo von á okkar þriðja barni. Eftir fyrri reynslu er heimafæðing augljós valkostur. Konan hefur verið að glugga í bækur um fæðingar síðan á annarri meðgöngunni og þegar líður á þessa meðgöngu er það henni mikið kappsmál að komast í gegnum nokkur rit sem eru alveg stórmerkileg fyrir verðandi foreldra. Hún meira að segja platar mig til að lesa eina bók sem hún sér að hún kemst ekki yfir að lesa því hún á aðra merkilega bók eftir líka.

Ég byrja að lesa HypnoBirthing the Mongan Method og það opnast fyrir mér nýr heimur. Þessi bók og aðrar sem konan hefur verið að lesa eru að kenna manni það að kvenlíkaminn sé fær um að fæða börn verkjalaust. Við byrjum að tala saman um lykilatriðin í þessum fræðum og ákveðum hvernig við ætlum að
bregðast við á hinum og þessum stigum fæðingarinnar. Ég kemst reyndar ekki nema í gegnum hálfa bókina áður en konan fer af stað en vá hvað það hjálpaði bæði mér og okkur. Í þessari fæðingu var mest notast við hausklóru til að losa um endorfín og þar með fyrirbyggja verki. Svo var bara slakað vel á og andað með hríðunum og allt gekk hraðar fyrir sig og að mestu verkjalaust.

Við vorum á milli fasteigna þegar þetta gerist svo þriðja barnið okkar fæddist þarna á loftinu hjá tengdaforeldrum mínum. Þessi fæðing var sú langþægilegasta og afslappaðasta af þeim öllum. Og ég er enn að lesa um HypnoBirthing og fæðingaaðferðir því það var svo ótrulegt að sjá hvað maður hafði látið
nútímasamfélagið plata sig með því að taka frá konum hæfileikann að fæða börn
átakalaust, en allar heilbrigðar konur sem eiga kvillalausa meðgöngu geta fætt börn sín svo til verkjalaust – frekar svona eins og í langhlaupi.

Mín skilaboð eru; lesið og fræðist sérstaklega vel um hvað er að gerast í kvenlíkamanum meðan á fæðingu stendur. Hvaða vöðvar koma við sögu, hvernig vinna þeir og hvernig getum við unnið með þeim, fjölmargar konur vinna ómeðvitað gegn þeim og framkalla með því verki. Svörin liggja svo fyrst og fremst í slökun en maður verður að vita hvernig á að slaka á og í nákvæmlega hvaða tilgangi hverju sinni.

Færðu inn athugasemd

Ein athugasemd

  1. Inga

     /  5.11.2011

    Takk fyrir að deila þessari sögu, sem var mjög raunsæ og nauðsynleg viðbót í umræðuna um fæðingar. Gott að fá sjónarhól föður líka.
    Þrefallt húrra fyrir ykkur!!

    Svara

Færðu inn athugasemd

  • Flokkar