Fæðing Ágústu Fríðar

Við Skúli vorum búin að ákveða að við myndum reyna að búa til annað barn um leið og við værum orðin hjón. Við grínuðumst með það að næsta barn yrði þá ekki getið í synd eins og Ingunn Eyja. Við vorum svo sem ekkert að ræða þetta við neitt marga en ég man að við vorum eitthvað að tala um þessi plön okkar þegar Eyrún vinkona og Steini voru að skutla okkur upp í bústað eftir brúðkaupsveisluna. Ég hafði nú oftar en einu sinni reynt að sannfæra Eyrúnu um hve frábært það yrði ef við myndum gera þetta aftur á sama tíma, en það eru bara 3 mánuðir á milli Ingunnar Eyju og Jökuls Otta. Þegar ég talaði svo við Eyrúnu tveim dögum eftir brúðkaupið sagði ég henni að ég hefði byrjað á túr daginn eftir giftinguna svo ég ætlaði að búa til barn þann 23. Hún hló og sagðist vera á akkúrat sama stað í tíðarhringnum. Það væri nú fyndið ef við yrðum ófrískar sama dag hugsaði ég. Jæja svo kom 23. og ég var með egglosverki og vissi því að egglos væri á næsta leiti. Eyrún hringdi í mig um kvöldið og spurði hvort við værum ekki enn með sama plan því þau hefðu í “the spur of the moment” kannski mögulega búið til barn þennan dag! Ég var hissa því ég bjóst ekkert við því að hún væri til endilega í þetta strax. Þann 25. hurfu síðan egglosverkirnir og ég vissi að þá væri tíminn. Ég sagði Skúla frá þessu með Eyrúnu og Steina og við hlógum að þessu öllu saman en hugsuðum að það væri nú ólíklegt að við yrðum endilega ófrísk strax.

Einn morguninn um tveim vikum seinna fékk ég svo jákvætt á óléttuprófi og varð aðvitað rosa ánægð. Ég bað Ingunni Eyju um að fara með prófið uppí rúm og rétta pabba sínum það. Hún gerði það en tókst einhvernvegin á leiðinni að taka lokið af og rétti svo pabba sínum endann með pissinu á. Hann þóttist ekkert skilja og sagði bara “á þetta að segja mér eitthvað?”. Ég sagði að ég myndi nú varla vera að vekja hann með neikvæðri óléttuprufu og hann bara brosti. Ég sendi Eyrúnu svo sms með fréttunum. Hún sagði mér seinna um daginn að hún héldi að hún væri að byrja á túr og líklega hefði þetta því ekki gerst þennan mánuðinn hjá þeim. Nokkrum dögum síðar kom annað í ljós og ég fékk sms frá henni sem í stóð “Partý 16. maí!”. Við flissuðum endalaust yfir þessu og fannst báðum hálf skrýtið að þetta hafi síðan farið svona, ég var sett 18. og hún 16. maí.

Meðgangan var fín, mér fannst allt annað að gera þetta svona í annað sinn. Ég var svo mikið afslappaðri og einhvernvegin svo viss um að allt væri eins og það átti að vera. Ég fann reyndar fyrir meiri þreytu og ógleði en það er nú ekkert skýtið þar sem í þetta sinn var ég vakin eldsnemma alla daga og auðvitað alltaf hugsandi um Ingunni Eyju sem var um þetta leiti að fara að byrja í leikskóla. Ég átti það alveg til að gleyma því stundum að ég væri ófrísk. Ég var svipuð í grindinni og þegar ég hafði gengið með Ingunni en þvílíkur munur að vera ekki í venjulegri vinnu, ég þurfti bara að passa mig að vera ekki mikið að taka til og þrífa, og svo mætti ég til sjúkraþjálfara einu sinni í viku sem hjálpaði fullt. Ég fékk 4 mismunandi flensur í 7. mánuðinum og ljótustu frunsu sem um getur en síðasta mánuð meðgöngunnar leið mér mjög vel.

Það var æðislegt að vera svona samferða Eyrúnu, við gátum náttúrulega blaðrað endalaust um allt sem tengdist meðgöngunni. Við fórum strax að ræða hugmyndina um heimafæðingu en ég hafði fengið að vera viðstödd heimafæðingu þegar systir mín átti Kollu sína í apríl 2009 svo ég var alveg búin að sjá hvaða kosti það hefði umfram spítalafæðingu. Fæðing Ingunnar Eyju hafði gengið svakalega vel svo mig hlakkaði bara til að fá að gera þetta aftur. Ég gat alveg ímyndað mér að það hefði verið yndislegt hefði ég fætt hana heima og ábyggilega afslappaðra. Ég hafði allan tíman trú á því að líkami minn myndi sko alveg kunna þetta og eftir að hafa fætt Ingunni var ég bara enn vissari í þeirri hugsun. Mig langaði núna að hafa mömmu aftur hjá mér, Jóhönnu systur til að taka myndir og video og mig langaði líka að reyna hafa Ingunni Eyju með. Mér fannst eitthvað svo undarleg tilhugsun að fara frá henni og koma svo heim með nýtt barn daginn eftir. Mér fannst eins og hún ætti að fá að vera hluti af þessu magnaða mómenti bara eins og hún var með okkur þegar við giftum okkur. Mig langaði líka að bjóða Friðriku systur að koma og fá að vera viðstödd fæðingu. Mér fannst líka frábær tilhugsun að fá reynda og góða ljósmóður til að sjá um mig í mæðraverndinni, fæðingunni og heimavitjununum. Ég hugsa að ég hefði nú ekki mátt mæta með allar þessar konur með mér upp á spítala svo það var eins gott að ég væri að fara að eiga heima!

Áslaug Hauksdóttir hafði tekið á móti hjá Jóhönnu svo ég hafði hitt hana áður og Jóhanna talaði endalaust vel um hana svo ég var viss um að ég myndi fíla hana jafn vel. Ég hafði samband við hana og varð ótrúlega glöð að komast að hjá henni. Eyrún vinkona komst líka að hjá henni sem mér fannst æðislegt svo við fórum í
alltaf skoðanir í sömu vikunni og töluðum um að eina sem mætti ekki gerast væri að við myndum fara afstað á sama tíma.

Ég hugsaði mikið um fæðinguna. Ég las Ina May Gaskin fæðingasögurnar og tengdi við svo margt. Ég byrjaði í jóganu hjá Auði í kringum 20. viku og fann strax í fyrsta tímanum hvað það var æðislegt. Mér fannst ég njóta jógans enn betur á þessarri meðgöngu. Ég las mér líka til um Hypnobirth og horfði á fullt af fæðingarvideóum á netinu. Ingunn Eyja horfði oft með mér og var sko alveg með þetta allt á hreinu. Hún kom líka með okkur í mæðraskoðanir og sagði alltaf svo krúttlega sömu romsuna “Áslau lómóir kemur jálpa okkur fá litlu systi út og vi so bara knúsa hana”. Af einhverri ástæðu hélt hún því líka alltaf fram að Áslaug ætti heima fyrir ofan okkur 🙂

Mamma var að klára dáleiðslu nám í Svíþjóð og hún las Hypnobirth bókina og bauð okkur Eyrúnu að koma til sín í tíma. Við fórum í fyrsta tímann á 28. viku og mættum svo til hennar vikulega það sem eftir var af meðgöngunni. Skúli og Steini mættu með í flesta tímana. Við fórum yfir fæðingarferlið, fyrri fæðingar reynslu og slökunaraðferðir í fæðingu. Mamma setti okkur öll í djúpslökun sem var æðislegt. Eyrún sagðist nú stundum hafa heyrt hrotur í mér og ég er nokkuð viss um að Skúli hafi oft sofnað líka, en samkvæmt mömmu þá var það allt í góðu. Í allt voru þetta um 10 tímar sem við fórum til hennar og ég er viss um að það hafi verið svaka mikill og góður undirbúningur í því. Það sem ég æfði mest sjálf var haföndunin úr jóganu og að ímynda mér að ég væri á staðnum mínum. Staðurinn minn var íslensk strönd, svartur sandur og smá rok, ég stend og horfi á öldurnar brotna og Skúli heldur utan um mig með heitu höndunum sínum. Kannski dáldið væmið en virkaði vel fyrir mig. Það kom mér í raun á óvart hvað svona “klisjulegar” hugmyndir virkuðu vel til slökunar.

Mamma fór til Bretlands á Hypnobirth námskeið þegar ég var komin um 37 vikur og þegar við vorum að fara yfir námsgögnin hennar eftir að hún kom heim skoðuðum við mynd af blómi. Mömmu fannst myndin æðisleg en mér fannst hún hálf skrýtin eitthvað, miðjan á blóminu leit út eins og hvirfillinn á barnshöfði og blómablöðin litu dálítið út eins og skapabarmar. Mér fannst myndin eiginlega frekar líta út eins og mjög undarleg píka heldur en fallegt blóm! Ég sagði nú ekkert um þetta við mömmu en hugsaði mér nú að ég myndi ekki fara að nýta mér þessa mynd í fæðingunni.

Við Skúli höfðum talað um frá byrjun meðgöngunnar að 22. maí væri dagurinn og ég sagði bumbubúanum oft frá því plani. Ég var sett 18. en Skúli kláraði mastersnámið sitt 21. svo ég var búin að lofa honum að halda henni inni til laugardagsins 22. Þetta hafði virkað þegar ég gékk með Ingunni því hún kom á þeim degi sem við höfðum beðið um. Ég stillti meira að segja símann í gríni á að hringja 22. maí með skilaboðunum “fæða barn í dag”. Reyndar á viku 39 stakk ég upp á við Skúla að við myndum biðja hana að koma 15. því ég var farin að hlakka svo til að hitta hana. Hann tók það ekki í mál. Jæja kvöldið 21. ákváðum við að prufa aðferð til að koma fæðingu afstað sem er skrifað um á doctor.is. Ég var jú komin aðeins yfir settan dag og allir tilbúnir að hitta litlu dömuna.Við fórum svona nokkurnvegin eftir leiðbeiningunum og hlógum að þessu í leiðinni. Ég fór svo bara beint upp í rúm að sofa. Skúli vaknaði með Ingunni daginn eftir og ég kúrði til 10. Ég tók eftir því fljótlega eftir að ég fór á fætur að bumban harðnaði með svona frekar reglulegu millibili. Ég sagði við Skúla að kannski myndi hún koma í dag eins og við höfðum planað.

Þar sem Ingunn kom í heimin akkúrat 3 tímum frá því að fyrsti verkur gerði vart við sig bjóst ég svona frekar við því að þessi dama myndi líka vilja koma fljótt í heiminn. Mamma var nú alveg búin að segja nokkrum sinnum að engar tvær fæðingar væru eins en samt gat ég ekki ímyndað mér neitt annað. Satt að segja bjóst ég dálitið við því að allt yrði bara voða svipað, svipuð fæðing og svipað barn, ég meira að segja ímyndaði mér að hún yrði eins í útliti. Boy was I wrong! 🙂

Eyrún kom til í mín rétt fyrir hádegi því við ætluðum saman í jógað en ég varð allt í einu voðalega heimakær og ákvað að sleppa tímanum. Þar sem Eyrún var komin 41 viku átti hún von á Áslaugu heim til sín um þrjú-leitið og þær ætluðu að skoða stöðuna og jafnvel hreyfa við belgnum hjá henni. Við Eyrún ákváðum að það væri nú best að láta Áslaugu vita að eitthvað væri að gerast hjá mér áður en hún færi til Eyrúnar. Ég ákvað því að bíða til klukkan 3 og heyra í henni þá. Við Skúli tókum aðeins til og fórum svo með Ingunni út á róló. Það héldu áfram að koma samdrættir en mér fannst svona svolítið eins og ég þyrfti að halda þeim við. Það spurði mig ein mamma á leikvellinum hvort ég væri komin langt og ég sagði henni að ég væri að fara að fæða í dag, hún horfði undarlega á mig og flissaði eins og ég hefði verið að grínast.

Um klukkan 15 var allt bara eins bumban harðnaði með frekar reglulegu millibili en engir verkir voru komnir með. Áslaug kom til mín og við ákváðum bara að tjékka á stöðunni, ég var hálf forvitin að vita hvort það væri eitthvað byrjað að gerast og viti menn það var komin 5 í útvíkkun! Ég og Skúli urðum mjög spennt og ákváðum bara að fara að gera tilbúið heima. Hann byrjaði að taka allt fram úr skrifstofu-geymslunni og planta fullt af dóti fram í stofuna sem var orðin svo fín. Ég skildi nú ekki alveg hvað hann var að gera en hann sagðist vilja gera skrifstofuna tilbúna í dag! Ég hugsaði með mér hmmm ok þetta hlýtur að vera einhverskonar karla hreiðurgerð og sagði bara að þetta dót þyrfti samt að vera farið úr stofunni áður en barnið kæmi:) Um fimm leytið settum við upp laugina og settum jógaboltana á sinn stað. Við settum þykka jógadýnu við sófann því ég vildi ekki fá illt í hnéin ef ég myndi fæða á gólfinu eins og síðast. Friðrika og Lucas komu og tóku Ingunni með sér í Ikea. Ég settist á jógaboltann og hlustaði á Grace og Joanna Newsom til skiptis og söng hátt með. Það var æðislegt! Mér leið svo vel og mig hlakkaði svo til að fá að hitta litlu dúlluna.

Ingunn Eyja hafði sofnað á leiðinni heim út Ikea og fór því bara beint upp í rúm um áttaleytið. Það var allt eins áfram og ég var orðin smá hissa á að hlutirnir væru að gerast á allt annan hátt en þegar Ingunn fæddist. Enn voru bara verkjalausir samdrættir og mér fannst ég ennþá þurfa að halda þeim dálítið við. Klukkan 22:00 ákvað ég að hringja í Áslaugu og hlýt að hafa sent henni hugboð því hún hringdi þegar ég var að ná í símann. Við ákváðum að tjékka aftur á stöðunni og hún kom til mín um hálf ellefu. Hún athugaði útvíkkunina og ég furðaði mig á því að það væri ekki óþægilegt, því þegar útvíkkun var athuguð áður en Ingunn fæddist var það mjög óþægilegt. Ég hugsaði með mér hve gott var að hafa svona klára og reynda ljósmóður og svo held ég líka að ég hafi bara verið orðin mjög góð í að slaka. Strax var öll þessi æfing farin að skila sér! 🙂

Jæja útvíkkun var 6-7 og leghálsinn fullþynntur, sem sagt alveg eitthvað búið að vera að gerast í rólegheitunum. Mér fannst eins og ég ætti kannski bara að fara að sofa. Áslaug reyndi að setja nál milli augabrúnanna á mér en það gekk ekki vel því húðin er svo þykk að nálin beyglaðist bara, við hlógum öll yfir því og hættum við. Ég var svo sem ennþá vel afslöppuð en á sama tíma spennt að fara meira af stað. Áslaug fór og við Skúli skriðum uppí hjónarúm til Ingunnar. Hann sofnaði strax en ég gat ekki sofnað, um leið og ég lagðist byrjuðu að koma smá samdráttarverkir svo ég fór fram og settist á boltann. Ég hringdi í Eyrúnu klukkan hálf tólf og sagði henni frá og á meðan ég talaði við hana fann ég allt í einu að nú var ég viss um að þetta væri að fara af stað og að ég myndi ekki fara að sofa upp úr þessu. Hún sagðist að hún ætlaði að óska sér þess að geta spjallað svona þegar hún yrði komin með 7 í útvíkkun.

Ég vakti Skúla. Ég settist á boltann við rúmkantinn og Skúli settist á annan bolta bak við mig og nuddaði á mér mjóbakið. Nú byrjaði ég að þurfa að einbeita mér. Ég fór á staðinn minn og slakaði vel inn í hvern samdrátt. Ég var svo glöð eitthvað og mér fannst svo gott að finna hitann frá höndunum á Skúla á mjóbakinu á mér. Ég hringdi í Áslaugu kukkan tólf og sagði “nú er þetta að fara að gerast” og hún svaraði “ég kem!” og hún var komin á innan við 10 mínútum. Mér varð svona smá óglatt og þefaði aðeins af piparmyntudropum og leið betur. Ég hringdi í mömmu, Jóhönnu og Friðriku sem biðu allar spenntar heima hjá sér. Þær búa allar í götunum í kring svo þær voru fljótar að skjótast yfir. Skúli fyllt laugina og ég dreif mig ofan í. Það var æðislegt að komast í vatnið, nánast of gott því eftir smá stund fannst mér eins og það væri farið að lengjast á milli og svo leið mér smá eins og ég væri bara að busla þarna í stofunni og allir bara að bíða en ekkert að gerast. Ég sagði Áslaugu frá því og hún bað mig að koma uppúr aftur. Við ákváðum að athuga útvíkkun og jafnvel sprengja belginn. Útvíkkun var 9.5 og hún gerði því gat á belginn. Það var skrítið að finna vatnið leka. Klukkan var 01:00.

Ég fór aftur í laugina og beint á hnén og hallaði mér fram á brúnina. Ég fann hvernig samdrættirnir hörðnuðu strax og ég reyndi að einbeita mér að hafönduninni. Mamma reyndi að vera góð og strjúka yfir mjóbakið en það virkaði ekkert. Það er nefnlilega svo skrýtið að snerting frá Skúla virkar fáránlega vel en frá einhverjum öðrum þá bara alls ekki. Áfram héldu samdrættirnir að harðna og svo kom einn svaka sterkur þar sem ég fann höfuðið alveg borast niður! Mér brá dálítið því ég mundi ekki eftir svona miklum þrýsting niður í rassinn og ég hugsaði “úff var þetta svona?”. Í næstu hríð reyndi ég að reisa mig upp en það var ekkert að hjálpa. Ég varð eitthvað smá hrædd um að rifna. Ég hélt fast í hendurnar á Skúla og fannst það hjálpa mér. Áslaug sagði mér að vera ekkert að streitast á móti og þá áttaði ég mig á því að ég væri að því svo ég hugsaði um að opnast eins og blóm og þá poppaði upp í huga minn myndin af skrítna píkublóminu sem mamma hafði sýnt mér og ég sá fyrir mér hvernig ég var að opnast eins og þetta blóm! Ég sem hafði verið svo viss um að ég myndi ekki nota þessa mynd og svo virkaði það bara rosa vel.

Ég þreifaði með höndunum og fann vel fyrir höfðinu. Hún var alveg að koma! Friðrika systir náði í Ingunni Eyju sem var sofandi og hún hélt bara áfram að sofa á öxlinni á henni. Ég varð voða lítið vör við að mamma, Jóhanna og Friðrika væru þarna. Ég fann ekki svo mikla rembingstilfinningu en þrýsti samt með hríðinni og fæddi höfuðið. Það var léttir. Með næsta samdrætti rembdist ég með og Áslaug togaði aðeins í til að hjálpa litlu út. Um leið og axlirnar komu fann ég hana alla renna út. Ég færði mig aftur og tók hana uppúr vatninu. Hún var svo stór og flott! Öll í fósturfitu. Það var svo gott að halda á henni og þvílíkur léttir að hún væri komin. Hún grét ekki alveg strax og Áslaug sagði að hún væri í fínu lagi og ég fann að það var alveg rétt. Eftir smá stund kom líka þessi kröftulegi grátur frá litlunni og ég leit upp og sá að Ingunn Eyja var að vakna í fanginu á Friðriku og kíkja á hana. Klukkan var korter yfir eitt og það var komin 23. maí. Hún vildi ekki koma 22. eins og við höfðum planað 🙂

Það var svo mikil gleði í loftinu. Okkur fannst litla vera alveg eins og systir sín. Skúli klippti strenginn. Ég fæddi fylgjuna sem var ekkert mál og stóð svo í smá stund í lauginni. Ég sá handklæði á gólfinu sem amma Fía átti og mér varð hugsað til hennar, mér fannst ég vera eins og hún. Hún átti auðvelt með að fæða strákana sína. Ég fór upp í rúm og fékk brauð og ávexti að borða, ég hafði lítið borðað yfir daginn svo ég var mjög svöng. Ég fékk litluna á bringuna og reyndi strax að setja hana á brjóstið. Ég var smá undrandi yfir því hve hratt allt gerðist eftir að belgurinn var sprengdur. Dagurinn var allur búin að vera svo ofur rólegur og svo kom þetta svaka “intense” korter. Það var eitthvað svo magnað!

Það var yndislegt að hafa Ingunni upp í rúmi hjá okkur að skoða systur sína. Litlan var mæld og 17 merkur og 54 cm, sem sagt ekkert lítil heldur stór og búttuð eins og Ingunn hafði verið. Jóhanna gerði flott print af fylgjunni sem ég er núna búin að ramma inn. Ég hafði ekki rifnað mikið og var ægilega fegin því, Áslaug saumaði og það tók stuttan tíma. Eftir að Áslaug, mamma, Jóhanna og Friðrika fóru settist ég með litluna fram í sófa þar sem Skúli og Ingunn sátu að horfa á Múminálfana, Ingunn vildi klára að horfa áður en við færum að sofa. Mér fannst svo gott að vera bara heima hjá mér. Það var svo eðlilegt. Ég fann þessa sömu tilfinningu og eftir að Ingunn fæddist, ég var ótrúlega stolt af sjálfri mér og ánægð með líkama minn.

Mér finnst svo gaman að rifja þetta allt upp núna og mér finnst ég svo rosalega heppin. Mér finnst ég eiga besta mann í heimi, bestu mömmu í heimi, bestu systur í heimi, bestu vinkonu í heimi, bestu ljósmóður í heimi, besta jógakennara í heimi og bestu litlu stelpur í heimi líka! Ég hlakka bara til að fá að gera þetta allt aftur 🙂

Fyrri fæðing sama höfundar: Fæðingarsaga Ingunnar Eyju

Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

  • Flokkar