Heimafæðingin mín

Ég var gengin 41 viku og 4 daga með mitt þriðja barn og orðin frekar þreytt og alveg tilbúin að koma stúlkunni í heiminn en ennþá var ekkert að gerast. Það var búið að losa þrisvar um belgina og búið að prófa nálarstungur en lítið gerðist. Barnið var búið að vera skorðað í rúmar 5 vikur og útvíkkun orðin 4, sem var auðvitað mjög gott, en vegna meðgöngulengdar vorum við farin að þurfa að íhuga möguleikann á gangsetningu ef daman léti ekki sjá sig á næstu dögum.

Ljósmóðirin okkar ákvað að koma um hádegi þennan dag og prófa einu sinni enn að losa um belgina og í þetta sinn spreyjaði hún hríðarörvandi nefspreyi á hanskann áður en hún losaði. Svo var bara að bíða og sjá.
Maðurinn minn kom heim úr vinnunni rúmlega 16 og spurði, eins og alla síðustu daga, “eitthvað að gerast?”. Þá var ég aðeins orðin vongóð um að eitthvað væri að detta í gang, var búin að fá 1-2 verki sem mér fannst vera eitthvað aðeins meira en fyrirvaraverkir en var samt ekki alveg viss.
Rúmlega 16:30 var ég nú eiginlega orðin nokkuð viss um að eitthvað væri að byrja að malla í gang og lét mömmu vita svo hún gæti lagt af stað, því það er þriggja tíma akstur á milli okkar. Hún ætlaði að sjá um eldri stelpurnar fyrir okkur og vera viðstödd eins og í síðustu fæðingum.
Ég sagði samt við hana að hún þyrfti nú ekkert að æða af stað, ég væri ekki alveg viss ennþá, hvort hún vildi ekki bara aðeins bíða og sjá til? Sem betur fer hlustaði hún ekkert á það og brunaði fljótlega af stað.
Rúmlega 17 ákvað ég að hringja í ljósmóðurina og láta hana vita að eitthvað væri að gerast, svo hún yrði í startholunum þegar þetta færi almennilega af stað.

Vegna fyrri fæðinga var ég búin að búa mig undir langa fæðingu og var þess vegna ekkert að stressa mig neitt, gerði ráð fyrir að barnið kæmi einhverntíma daginn eftir bara.
Við fórum samt að gera slöngurnar klárar svo hægt væri að fylla laugina, setja utan um ungbarnasængina og gera fæðingarstofuna klára svo við þyrftum nú ekki að brasa í því seint um kvöld eða um nóttina þegar fæðingin væri komin í gang.
Það hitti svo einstaklega vel á að vinkona mín hafði komið færandi hendi fyrr um daginn, með remedíur, ilmkjarnaolíur og fleira fæðingargóss og ég ákvað að prófa Clary sage olíu, sem er hríðarhvetjandi.
Ég veit ekki hvort það var útaf olíunni eða hvað, en um 18 leytið var allt komið á fullt, verkirnir orðnir reglulegir, stutt á milli en stuttir í einu samt. Fram að þessu höfðu stelpurnar okkar verið heima en þarna fann ég að ég var ekki að höndla það. Þannig að einn afinn var kallaður út og bauð þeim systrum í hesthúsin og í kvöldmat. Ég hringdi svo í ljósuna aftur og bað hana að koma, fékk grænt ljós á að fara í laugina og var ekki lengi að vippa mér þar ofaní!
Þaðan fór ég ekkert aftur, nema fyrir eina klósettferð og það var ekki skemmtileg ferð. Það var margfalt erfiðara að ráða við verkina á landi og þvílíkur léttir að komast aftur í laugina.
Það hjálpaði mér mikið að hugsa um öldugang í hríðunum og fjallgöngu og á tímabili skemmti ég sjálfri mér með því að syngja (í huganum!) “upp, upp, upp á fjall…”
Verkirnir fóru nánast allir í bakið og var það hlutverk mannsins míns að pressa eins fast og hann gat á mjóbakið á mér og heyrðist reglulega í mér “FASTAR!!” eða “OFAR/NEÐAR!”
Um 20 leytið ákváðum við að tékka á útvíkkun að gamni og var hún orðin 8, mér til mikillar undrunar og ánægju! Rétt í því kom aðstoðarljósmóðirin innum dyrnar og mamma rétt á eftir henni.

Uppúr þessu fóru verkirnir harðnandi og þrýstingurinn niður fór að verða virkilega mikill og þar með fór allur sjarminn af öldugangi og fjallgöngum! Það var snarlega skipt um aðferð við að halda einbeitingunni og það eina sem mér datt í hug var að þylja stafrófið í huganum við hvern verk. Um leið og ég fann að verkur var að byrja fór ég fram á fjóra fætur, lokaði augunum og þuldi í huganum “AAA-BBB-CCC-DDD…” Ég komst þó aldrei lengra en “VVV” því ég gat ómögulega munað hvað kom á eftir V í stafrófinu og hafði miklar áhyggjur af þessu á tímabili, þ.e. að ég sem kennaranemi kynni ekki stafrófið lengra en að V.
Á vissum tímapunkti, svona síðustu útvíkkunarverkina, var stafrófið ekki að gera sig lengur og þá greip ég í “WARNING” orðin á botni fæðingarlaugarinnar. Ég las þau afturábak og áfram, aftur og aftur, og var alveg komin með allar öryggisráðstafanir á hreint þegar útvíkkun lauk.
(Það er t.d. alveg stranglega bannað að stinga sér í fæðingarlaugar!)
Um 21 leytið komu stelpurnar okkar aftur heim til þess að vera viðstaddar og þá var mér orðið alveg nákvæmlega sama hver var í kringum mig, svo lengi sem einhver þrýsti á bakið á mér í verkjunum. Ég hvorki sá né heyrði í fólkinu í kringum mig, var bara búin að loka á allt utanaðkomandi.

Um 21:30 var útvíkkun lokið og rembingstilfinningin farin að láta á sér kræla. Eitthvað hélt aftur af mér að fara að rembast eitthvað af viti, ég var einhvernveginn ekki tilbúin alveg strax og ákvað að leggjast í smá væl og sjálfsvorkunn fyrst. Ég var búin að þreifa eftir kollinum og fann hann vel rétt fyrir innan en það var ekki nokkur hvatning fyrir mig, frekar öfugt. Ég man eftir að hafa hugsað þarna að það hefði nú ekkert verið svo hrikalega slæmt að vera ólétt og ég gæti bara alveg hugsað mér að geyma þetta fæðingarstúss aðeins og vera bara ólétt svolítið lengur! Á þessum tímapunkti fannst mér þetta alveg raunhæfur möguleiki og ætlaði bara að standa upp og láta þetta gott heita í bili.
Klukkan 21:45 sprakk svo belgurinn allt í einu og þá ákvað ég að hætta að væla og drífa bara í þessu og í næstu hríð fæddist kollurinn. Ég fann strax að naflastrengurinn var utan um hálsinn en mjög laust þannig að ég krækti honum yfir höfuðið. Það var svo smábið eftir næstu hríð, sem mér fannst reyndar vera heil eilífð og allt í einu greip mig eitthvað óöryggi með að hún væri með höfuðið í vatninu. Ég spurði örugglega þrisvar hvort hún mætti vera svona lengi ofaní, þó svo að ég vissi alveg að það væri í lagi. Þegar næsta hríð kom svo loksins rann stúlkan öll út og ég greip hana uppúr vatninu. Hún var svolítið blá og það fyrsta sem ég tók eftir var hvað hún væri stór. Hún var smástund að átta sig en fór svo að anda og grét kröftuglega og fékk strax 8-10 í Apgar. Ég fékk strax rosalega sterka samdráttarverki og gat engan veginn haldið á henni þannig að maðurinn minn klippti strenginn og fékk stúlkuna í fangið á meðan ég fór uppúr lauginni og fæddi fylgjuna krjúpandi á gólfinu. Hún kom fljótt og var rosalega flott, hjartalaga og ekkert smá þykk, vó rúmt kíló. Spöngin var heil þannig að ég slapp við allan saumaskap.
Litla gullið var svo vigtuð og var 4.830g, rúmar 19 merkur, og mældist 56 cm.

Ég var svo hátt uppi af hormónarússi eftir þessa yndislegu fæðingu að það rann ekki af mér brosið allt kvöldið!
Eldri stelpurnar okkar voru ofboðslega hamingjusamar yfir að hafa séð systur sína koma í heiminn og mjög svo stoltar. Þær fóru svo fljótlega að sofa með ömmu sinni og á meðan pöntuðum við pizzur og fengum okkur æðislega tertu sem vinkona hafði bakað handa okkur fyrir fæðinguna.
Það var dásamlegt að skríða svo bara uppí rúmið okkar og kúra með ponsuna á milli okkar, frábær endir á yndislegri fæðingu!

Færðu inn athugasemd

Ein athugasemd

  1. Hugrún Ósk

     /  14.11.2011

    Svo skemmtileg saga 😉 góður penni á ferð þó hann kunni ekki stafrófið nema að V 😉

    Svara

Færðu inn athugasemd

  • Flokkar