Vatnsfæðingar

Waterbirth
Nokkur hagnýt atriði sem gott er að hafa í huga ef vatn er notað sem verkjastilling í fæðingu eða ef ætlunin er að fæða í vatni.

Hvers vegna er vatn notað í fæðingum?
Vatnið auðveldar allar hreyfingar og gerir það auðveldara fyrir konuna að vera í þeim stellingum sem henni þykja þægilegar.
Það veitir slökun, verndar orku konunnar og veitir henni öruggt eigið rými. Vatnið lækkar einnig blóðþrýsting og minnkar hættu á spangarrifum þar sem vatnið teygir á spönginni.
Vatnið veitir mikla verkjastillingu, getur stytt fæðinguna og minnkað líkur á inngripum og þörf fyrir lyf.

Mæður sem átt hafa í vatni segja fæðinguna auðveldari og að þær upplifi sig hafa meiri stjórn á aðstæðum.

Hitastig:
Á útvíkkunartímabilinu ætti hiti vatnsins að vera á bilinu 32°-36° en mikilvægast er þó að móður líði vel og sé hvorki heit né rjóð.
Móðir þarf að passa að drekka vel af vökva meðan hún er í vatninu.
Ef vatnið er of heitt á útvíkkunartímabili er hætta á að lengra verði milli hríða og þær ekki eins sterkar.
Ef svo ber undir er gott að fara úr lauginni og ganga aðeins um.
Þegar komið er að fæðingunni sjálfri á hitastigið að vera 36°-37° svo barnið fæðist í vatn við líkamshita.

Gott er að notast við baðhitamæla fyrir ungabörn og mæla hitastigið í miðju laugar, þar sem vatnið kólnar hraðar út við barma laugarinnar.

Dýpt vatns:
Þegar móðir krýpur í lauginni og situr á hækjum
sér ætti vatnið að ná yfir bumbu að brjóstum.
Þegar hún situr á vatnið að ná að bringu.
Gott er að hafa axlir berar til að líkaminn geti kælt sig.
Athugið að ef fleiri ætla í laugina þarf minna vatn.

Skoðanir í vatni:
Ef athuga þarf með hjartslátt barns með Doppler er auðvelt að lyfta bumbunni uppúr vatninu og láta hlusta. Sjaldnast gerist þörf á að fara uppúr.
Ljósmóðir getur einnig gert innri skoðun í vatninu til að athuga með útvíkkun og meta þannig framgang fæðingar.

Hvenær á að fara ofaní?
Flestum bókum og heimildum ber saman um að hentugasti tíminn til að fara í laugina sé þegar útvíkkun er um 4-6 cm og/eða verkir orðnir sterkir og reglulegir.
Ef farið er í laugina of snemma, áður en verkir eru reglulegir og sterkir, er hætt við að slökunin sem fæst með vatninu hægi á ferlinu og geti jafnvel stoppað það.

Hvað er gott að hafa til staðar?
– Ef laug er fengin að láni er hagkvæmast að leggja málningarplast ofan í hana,  bæði upp á hreinlæti fyrir og eftir fæðingu. Einnig er gott að leggja plast undir laugina til að verja gólfefni.

-Hitamæli er gott að hafa til að mæla hitastig vatns og halda réttu hitastigi.

-Sigti eða lítil dolla til að taka við hægðum sem móðir gæti látið frá sér í fæðingunni.

-Vatn til drykkjar fyrir þá sem eru í lauginni

-Vatn í úðabrúsa ef óskað er.

-Handklæði

Helstu frábendingar vatnsfæðinga eru eftirtaldar:
-Meðganga undir 37 vikum

-Fjölburafæðing

-Afbrigðilegt fósturhjartsláttarrit

-Grænt legvatn

-Ríkuleg blæðing frá leggöngum

-Sjúkdómar móður s.s. alvarleg meðgöngueitrun og alvarlegir blæðingarsjúkdóma

Þýtt af Waterbirth International

Heimildir :

Balaskas, J. (2004).The waterbirth book.
www.familymidwifery.com og
Waterbirth International

  • Flokkar