Fæðingarsaga Ingunnar Eyju

Fyrst ætla ég aðeins að skrifa niður það sem ég og Úbba (bumbunafnið) gerðum síðasta daginn hennar í bumbunni. Við áttum að mæta klukkan eitt á Landspítalann til að fara í sírita og blóðþrýstingsmælingu vegna þess að í mæðraskoðuninni daginn áður hafði ég mælst með eitthvað hærri blóðþrýsting en vanalega. Það kom allt voðalega vel út úr mælingunum en ég og Skúli pældum svolítið í því að það virtist vera akkúrat 10 mín. á milli samdrátta, en ljósmóðirin sagði nú ekkert um það. Þetta voru auðvitað bara alveg verkjalausir samdrættir, bara hörð bumba, og ég hafði verið að fá þá svona hálfa meðgönguna. Okkur fannst samt svolítið skondið að sjá að þeir væru að koma með reglulegu millibili.

Við fórum eftir skoðunina í jólaútréttingar. Við byrjuðum í Ikea og fórum síðan í Rúmfatalagerinn að kaupa eitthvað jólaskraut, næst kíktum við í Góða hirðinn, Europris og enduðum svo í 66 Norður á Laugaveginum. Þegar við voru komin í Europris var ég allt í einu svo svakalega þreytt að mér fannst ég varla geta staðið í lappirnar og bað Skúla um að keyra því ég var bara alveg að fara að sofna. Í bílnum á leiðinni heim sagði ég við bumbuna „jæja Úbba nú er 12.12 á morgun og þá mátt þú bara koma!“ Skúli svaraði “ á morgun, er það??“ Una vinkona hafði sagt mér frá því að hún sagði bumbubúanum sínum nokkrum sinnum hvaða dag hann ætti að koma og það svona svínvirkaði hjá henni því Sverrir hennar kom þann dag! Ég ákvað því að það sakaði jú ekki að prufa þetta og sagði því nokkru sinnum við Úbbu að þetta væri góður dagur til að fæðast. 12.12.´07 er auðvitað flottari afmælisdagur en 13.12.´07, en það var settur dagur.

Ég lagði mig aðeins þegar ég kom heim en heyrði svo í Eyrúnu vinkonu og hún bauð mér upp til sín í mat. Hún eldaði voða góðan ýsuofnrétt og við borðuðum saman. Ég sagði henni frá skoðuninni og frá reglulegu samdráttunum og við glottum til hvor annarra, augljóslega hugsandi það sama. Við fórum að skoða myndir frá fæðingu Jökuls hennar og skoðuðum síðan óléttumyndir sem Jóhanna systir hafði tekið af mér tveimur vikum áður. Við hlógum svo rosalega mikið að óléttumyndunum að það munaði engu að ég myndi pissa í buxurnar! (þá á ég við þær myndir sem fara ekki í neitt albúm). Það er nú fyndið að pæla í því núna en ég man eftir því að jógakennarinn í meðgöngujóganu minntist einhvern tímann á það að „hlæja barninu í heiminn“ og ég hvíslaði að Eyrúnu að ég væri sko alveg til í að gera það. Kannski fór þetta að malla afstað með hláturskastinu!

Ég kvaddi Eyrúnu þegar klukkan var eitthvað að ganga tólf og sagðist heyra í henni á morgun og við skyldum kannski kíkja saman í Ikea eða eitthvað. Hún sagði mér eftir að ég átti að þegar ég hafi sagt þetta hafi hún hugsað með sér að við værum sko ekkert á leiðinni í Ikea neitt á næstunni.

Þegar ég kom heim var Skúli eitthvað að dunda sér og ég fór í sturtu og við forum upp í rúm um tvö leitið. Ég bað hann að leggja höndina á mjóbakið á mér því ég var með einhvern undarlegan seyðing þar. Hann sagði við mig að þegar við vöknuðum skyldi ég klára að setja í töskuna og hann myndi skúra og ryksuga. Ég sagði já við því og við buðum góða nótt. Hann steinsofnaði strax en ég gat hinsvegar ekki sofnað. Ég lá bara og fylgdist með hreyfingum Úbbu. Ég fór að fá svona smá fyrirvaraverki en bara svipað og undanfarin kvöld, smá stingi niður í leggöng, grindarverki og seyðing í mjóbakinu. Ég var vön að skipta bara um stellingu í rúminu og þá sofnaði ég yfirleitt en núna lá ég bara og fylgdist með þessu öllu saman. Allt í einu heyrði ég svona eins og smá smell og ég hugsaði með mér að kannski væri vatnið að fara og varð pínu spennt. Ég prufaði að standa upp en það lak ekkert vatn svo ég fór á klósettið og sá þá að slímtappinn væri að fara. Nú varð ég mjög spennt en fór aftur upp í rúm og ætlaði nú að reyna að sofna því líklega myndi þetta þó ekkert gerast neitt fyrr en í fyrsta lagi næsta dag.

Ég gat alls ekkert sofnað og fór líka að fá svolitla verki með samdráttunum. Ég fór bara fram og kíkti í tölvuna, verkirnir urðu aðein meiri og ég settist á boltann til að geta ruggað mér. Ég ákvað að prufa að athuga á tímanum á milli samdráttanna áður en ég myndi vekja Skúla minn. Klukkan var 03:18. Það voru um tvær og hálf mínútur á milli samdrátta og hver samdráttur varði í svona 40 sec. Ég hugsaði með mér að ég hlyti nú bara að vera að ruglast eitthvað. Ég kíkti á ljosmodir.is og þar stóð „Líklegt er að konunni verði ráðlagt að koma á fæðingardeild ef 4 mínútur eða minna er á milli hríða, hver hríð varir í 40 sekúndur eða meira.“ Nú ákvað ég að vekja Skúla. Ég fór og pikkaði aðeins í hann og hvíslaði „Skúli minn ég held að hún ætli kannski bara að koma 12.12 eins og við báðum um svo þú ættir kannski að fara að setja í töskuna“ Hann svaraði mér “ nei ekki núna“. Ég þagði í smá stund en sagði síðan aftur og nú aðeins hærra “ ég held að hún ætli bara að fara að koma“ þá vaknaði hann og rauk á fætur! Ég settist aftur á boltann og nú fóru samdrættirnir að verða svolítið sárir svo ég ákvað bara að hringja í mömmu.

Pabbi svaraði í símann og ég sagði honum að nú væri ballið líklega byrjað, hann rétti mömmu símann og hún spurði hvort hún ætti ekki bara að koma yfir (þau búa í næstu götu). Hún kom 10 mínútum síðar með krullujárnið með sér. Nú voru verkirnir orðnir ansi sárir en þó voru bara liðnar 40 mínútum frá því að þeir byrjuðu. Ég bað mömmu að hringja í Hreiðrið og heyra hvað ljósmóðir hefði að segja. Ljósmóðirin spurði hvenær verkirnir höfðu byrjað og var greinilega ekkert alveg á því í fyrstu að við ættum eitthvað að vera að drífa okkur uppeftir. Mamma sagði henni að hún hefði verið einn og hálfan tíma að eiga sitt fyrsta barn og að við vildum koma upp eftir núna, allavega til að láta athuga stöðuna. Ég var enn að rugga mér á boltanum en verkirnir voru orðnir meira sárir. Ég ákvað að prufa að fara aðeins í sturtuna en entist ekki lengi þar og vildi bara drífa mig af stað. Skúli hafði verið voðalega duglegur að henda saman allskonar dóti í töskuna, geisladiskum, ilmspreyi, sokkum og fleiru.

Við fórum út í bíl en ég átti aðeins erfitt með að setjast inn í bílinn vegna samdráttarverks. Mamma keyrði og mér fannst hún vera að keyra á 5km hraða. Það var alveg logn úti og frost, veðrið var mjög fallegt og allt voðalega rólegt, enda var klukkan ekki nema hálf fimm. Það stoppaði lögreglubíll við hliðina á okkur á rauðu ljósi en löggunni hefur eflaust fundist eitthvað vafasamt í fyrstu að sjá stóran Benz keyra um á fimm kílómetra hraða um miðja nótt. En þeir áttuðu sig nú líklega fljótt á því hvað var að gerast. Skúli hringdi í Jóhönnu systur og sagði henni að við myndum láta hana vita hver staðan væri þegar við kæmum upp á spítala. Hún ætlaði nefnilega að taka vídeó og myndir af fæðingunni. Þegar við komum föttuðum við að við hefðum gleymt mæðraskránni heima. Mamma þaut til baka til að ná í hana.

Unnur B. Friðriksdóttir ljósmóðir tók á móti okkur og vísaði okkur inn í skoðunar herbergi. Ég settist í hægindastól og hún setti á mig sírita, ég sagði við Skúla að við hefðum kannski ekki átt að senda mömmu til baka án þess að fá að vita fyrst hvort við yrðum send heim eða ekki. Ég var auðvitað að miða þetta allt út frá tímanum og það var bara liðinn einn og háfur tími síðan ég fékk fyrst verki. Ég man að ég hugsaði samt í einni hríðinni að ef það ætti að senda mig heim aftur þá myndi ég nú líklega þurfa að fá einhverja deyfingu. Við biðum í svona korter eftir mömmu, mér fannst það reyndar vera heil eilífð. Ég einbeitti mér bara að hafönduninni á meðan ég sat í hægindastólnum. Verkirnir voru mjög miklir og í smástund fór ég að ofanda, ég varð dofin í höndunum og fótunum. Ég sagði ljósmóðurinni það og hún benti mér á að anda rólegra þá einbeitti ég mér betur að hafönduninni og mér leið fljótt betur. Mér fannst svolítið erfitt þarna að spenna ekki líkamann á móti hríðunum, en ég vissi að það myndi bara gera þær verri. Mér fannst mjög gott að slaka á milli hríðanna en þá leið mér bara vel og gat aðeins spjallað. Ljósmóðirin gat í rauninni ekkert gert fyrr en hún fengi mæðraskrána mína, til að sjá hvort ég mætti ekki alveg fæða í Hreiðrinu.

Þegar mamma kom tilbaka kíkti ljósmóðirin í skrána og sagði að ég mætti koma upp á bekkinn svo hún gæti athugað með útvíkkunina. Ég staulaðist úr buxunum og uppá bekkinn. Hún þreifaði aðeins og ég, Skúli og mamma biðum spennt eftir að fá að vita stöðu mála. Ég trúði því varla þegar ljósmóðirin sagði að ég væri komin með 9 í útvíkkun og barnið væri bara að fara að koma! Við göptum öll í smá stund en vá hvað ég varð samt ánægð og rosalega  spennt, nú var svo stutt í að ég fengi að hitta dúlluna.

Ég sem var búin að búa mig undir 12 tíma átök svo átti barnið bara að fara að koma aðeins tveim tímum eftir að þetta byrjaði allt saman! Ljósmóðirin sagði að við gætum bara farið inn á fæðingarstofu núna og ég lagði bara af stað út á gang, ber að neðan, í engu nema sokkum og nærbol. Henni tókst nú samt að halda aðeins í mig til að skella laki utan um mig, það hefði kannski verið pínu óþægilegt fyrir einhvern nýbakaðan föður að rekast á mig þarna bera að neðan í miðjum hríðum! Á þessum tímapunkti hefði mér ekki geta verið meira sama. Ég fann fyrir þrýsting niður og sagði við ljósmóðurina „ég held ég þurfi kannski að kúka“ hún svaraði blíðlega „nei veistu,ég held að þetta sé líklega bara barnið að koma“. Ég dreif mig inn á fæðingarstofuna og skellti mér á gólfið nánast bara við hurðina. Ég sá nefnilega stól þar sem mér leist vel á að nota til að halla mér fram á. Ég skoðaði ekkert stofuna en vissi alveg að rúmið kæmi ekki til greina.

Næsta klukkutímann réði líkaminn öllu, ég þurfti ekkert að hugsa, líkaminn bara sá alfarið um þetta. Nú hætti ég líka að finna svona mikið til sem var ótrúlegur léttir. Ljósmóðirin sagði mér að líklega myndi vatnið fara í næsta rembing. Það var rétt hjá henni og VÁ hvað það var mikið! Ég var alveg hissa, það fossaðist bara út í einni risa bunu og gólfið varð allt rennblautt. Það kom svo yndisleg ungbarnalykt með vatninu sem var voða gaman því þá varð mér hugsað til þess að ég væri alveg að fara að fá barnið mitt í hendurnar. Rembingurinn var alveg í smá tíma en ég var alltaf að prufa að finna með puttanum hve langt niður hausinn væri kominn, en hann fór alltaf smá tilbaka á milli hríða. Ljósmóðirin útskýrði að svona væri þetta ferli, tvö skref fram – eitt skref aftur.

Skúli hvíslaði oft að mér að ég væri dugleg og að hann elskaði mig. Það var mjög gott. Ég sagði við ljósmóðurina að mig langaði svo til að fara í pottinn og hún spurði hvort ég vildi fæða í vatninu. Ég sagði já við því og hún fór og skrúfaði frá krananum. Eftir um fimm mínútur kom hún til mín og sagði að hún héldi að barnið yrði alveg örugglega komið áður en baðið myndi fyllast. Hún skrúfaði fyrir aftur og ég hugsaði með mér að í næstu fæðingu myndi ég hringja á undan mér og láta fylla pottinn.

Jóhanna kom um þetta leiti og ég rétt svo leit upp eitt augnablik þegar hún kom inn. Ég drakk vel af vatni því ég varð ofboðslega þyrst af þessum átökum. Reyndar fannst mér líka eins og ég hefði aldrei verið jafn svöng og að ég hefði átt að borða strax og þetta byrjaði, en ég geri það bara næst. Mér varð líka hugsað til þess að ég ætti kannski að skella á mig hné hlífum fyrir næstu fæðingu því mér var orðið svolítið illt í hnjánum á hörðu gólfinu. Jæja svo kom loksins kollurinn en það var ótrúlega magnað, ég fann vel fyrir honum og mér tókst að fæða hann hægt og rólega, sem er voða gott. Ljósmóðirin reyndi að fá mig til að koma með höndina og finna kollinn þegar hann var komin svona hálfa leið út en á þeim tímapunkti fannst mér ég ekki geta hreyft á mér hendurnar. Ég vildi bara klára að koma kollinum út. Það liðu síðan alveg rúmar tvær mínútur þar til næsta hríð kom og mér fannst frekar skrýtið að vera bara að bíða þarna í rólegheitunum, með barnshöfuð í klofinu! En svo kom næsta hríð og ég fann vel fyrir barninu snúast á hlið. Svo um leið og axlirnar komu út réði ég engu lengur, restin af kroppnum bara rann út. Það var helvíti vont. Hún kom líka með hnefann upp með fram öxlinni þannig að ég rifnaði töluvert við það.

Hún fór strax að gráta og vá þvílíkur kraftur í röddinni! Þetta var ótrúlegt, ég var bara búin að þessu. Samt fannst mér einhvernvegin svo stutt síðan við Skúli buðum góða nótt. Hún fæddist klukkan 6:23, þremur tímum eftir að fyrstu verkir gerðu vart við sig. Naflastrengurinn var frekar stuttur þannig að ég gat ekki fengið hana í fangið fyrr en búið væri að klippa strenginn. Ljósmóðirin setti hana fyrst bara upp á mjóbakið á mér þannig að ég gat klappað henni aðeins. Það var svolítið skrýtið, allir að skoða hana þ.e. ljósmóðirin, Skúli, mamma og Jóhanna systir, en ég gat ekkert séð. En Skúli klippti strenginn og ég snéri mér við og fékk hana í fangið. Þetta er auðvitað það magnaðasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað. Ég fann að ég var ótrúlega stolt af sjálfri mér og ánægð með líkama minn. Dúllan var æðisleg, 17 merkur og 53 cm, vel búttuð og rosa flott. Hún var eins og spýtt út úr nösinni á pabba sínum og það fór ekkert á milli mála hvað hann var ánægður með hana. Það þurfti ekkert að þrífa hana eða klæða strax þannig að við fengum að kúra með hana alveg í friði fram að hádegi.

Við sváfum aðeins, borðuðum töluvert, skoðuðum dúlluna endalaust mikið og ákváðum að hún fengi nafnið Ingunn Eyja. Ég var nú ekkert að nenna að leggja neitt meira á mig eftir að ég var komin með dúlluna í fangið og þegar ljósmóðirin sagði að ég þyrfti kannski að koma aftur á hnén til að fæða fylgjuna svaraði ég bara “ég nenni því eiginlega ekki” en ég gerði það nú samt.

Fylgjan var rosa stór og flott. Hún minnti mig á tré og það var gaman að skoða hana. Svo tók um hálftíma að sauma en það fannst mér vont. Líklega bara vegna þess að ég var komin með nóg og langaði bara til að slaka á. Systir mín var mjög dugleg að taka myndir og eftir fæðinguna hélt hún áfram og tók myndir af fylgjunni og reyndar líka blóðugu klofinu á mér. Þá held ég að ljósmóðurinni hafi fundist við vera smá skrýtnar og mamma hafði orð á því að við værum báðar í listageiranum og ljósmóðirin hló bara að þessu. Ég er mjög ánægð að hafa lent á svona frábæri ljósmóður og ég vona nú bara að ég lendi á henni með næsta barn líka.

Mamma sagði að það hefði nú ekki þótt boðlegt fyrir ljósmóður að liggja svona á gólfinu í legvatnspolli til að taka á móti barni fyrir 25 árum. Þá hefði einhver eflaust skipað mér uppí rúm. Ég var hissa á því að ég grét ekkert, ég var einhvern veginn búin að ímynda mér að ég myndi gráta af sársaukanum í fæðingunni og gráta af gleði við að fá dúlluna. En það kom bara ekki eitt tár. Mér fannst þetta allt eitthvað svo eðlilegt, ekki jafn dramatískt og ég hafði ímyndað mér.

Við hlógum að því eftir fæðinguna að Skúli pakkaði niður allskonar dóti, allt eftir lista sem ég hafði verið búin að skrifa, en við þurftum varla að opna töskuna. En það er víst ekki hægt að vita fyrirfram hvernig þetta verður. Ég er allavega mjög ánægð með hvernig þetta fór allt saman og væri alveg til í að gera þetta aftur á morgun. Mér fannst líka mjög gaman að mamma og systir mín skyldu hafa verið viðstaddar. Ég var harðákveðin í því fyrir fæðinguna að mamma yrði að vera viðstödd mér til stuðnings en eftir fæðinguna fann ég að ég hefði í rauninni alveg eins getað gert þetta alein úti í skógi. En það er nú líka bara vegna þess að þessi fæðing gekk svona rosalega vel.

Ég sé alls ekki eftir því að hafa fengið systur mína til að taka vídeó og myndir því það er æðislegt að skoða þetta núna. Ég vona að ég fái einhvern tímann að vera viðstödd við fæðingu, því það er eflaust allt annað að upplifa fæðingu en að fylgjast með fæðingu. Ég sá í rauninni ekkert nema stólbakið fyrir framan nefið á mér en ég fann hinsvegar fyrir öllu. Það sem mér finnst best að hafa upplifað er þetta algjöra traust til líkama míns sem vissi sko alveg upp á hár hvað hann var að gera. Þetta er án efa kraftaverk og að hugsa sér að þetta gerist á hverjum degi er ótrúlegt.

Ég hlakka bara til að fæða næsta barn!

Önnur fæðing sama höfundar: Fæðing Ágústu Fríðu

Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

  • Flokkar