Tvær ólíkar fæðingar

Fæðing frumburðarins, skrifað haustið 2006. Sjúkrahúsfæðing.
Klukkan var 3:30 að nóttu þegar ég vaknaði við einhverja skrítna verki í bumbunni. Ég var ekki alveg að trúa því að fæðingin væri að fara af stað þar sem enn voru tveir dagar í settan dag. Ég taldi ólíklegt að ég yrði ein af þessum frumbyrjum sem þyrftu ekki að ganga fram yfir settan dag.

Ég fór þó á fætur eftir stutta stund. Ég gat ekki sofið lengur fyrir samdráttarverkjum, en einnig vegna mikillar spennu yfir því sem var að fara að gerast. Ég sat ein frammi við tölvuna til um klukkan 5:30 þar sem ég vildi ekki vekja manninn minn…. enda ekki enn að trúa því að þetta væri nú loks að fara að gerast. Á þessum tíma voru verkirnir að koma á innan við 5 mínútna fresti. Ég ákvað að hringja upp á deild og spjalla við ljósurnar þar, og við það vaknaði maðurinn minn. Hann hentist fram úr mjög ringlaður að sjá greyið!

Við hjónaleysin ákváðum bara að taka því rólega heima og settum mynd í tækið. Um 8 leytið var ég farin að trúa því að barnið væri á leiðinni í heiminn þannig að við skruppum upp á deild að láta tékka á stöðunni. Ég var þá komin með 2 í útvíkkun og samdrættirnir voru á 3-4 mínútna fresti. Við fórum því aftur heim og kláruðum vídeó glápið og fengum okkur smá í gogginn. Ég reyndi að rölta um og sitja á boltanum til að flýta ferlinu. Setti líka á mig TENS tækið góða sem var ansi notalegt svona fyrst. Um hádegi var farið að harðna ansi mikið á hríðunum og voru þær að koma á um 3 mínútna. fresti. Ég vildi því fara upp á deild og fá að hendast þar í baðið og fá nálastungur.
Þegar við komum þangað var tékkað aftur á statusinum og var útvíkkunin um 4. Þetta virtist ekki ætla að vera ofurfljót fæðing, en eitthvað var þó að gerast!

Ég fór í baðið og fékk mínar nálar. Um þetta leyti fer tímaskyn mitt á fæðingunni að hverfa aðeins. Var nefnilega ansi lúin þar sem ég hafði ekki sofið nema um 8 tíma samtals tvær næturnar á undan. Allavegna veit ég að seinnipartinn er tékkað aftur á útvíkkuninni og ekkert hafði gerst þar. Ljósan Dirfðist að segja mér að enn væru bara 4 í útvíkkun!! Ég var nú ekki par sátt við það, enda haft harðar hríðar á innan við mínútu fresti í um rúma 2 tíma þarna.

Ég lá í hnipri upp í rúmi og skildi bara ekki afhverju þetta væri svona langdregið. Ljósmóðirin vildi kalla á lækni til að láta sprengja belginn. Læknirinn kom og athugaði útvíkkun og sagðist ætla að sprengja. Eða eins og hann orðaði það þegar ljósmóðirin spurði hvort það væri nú ekki ráð, “Ja, jú. Eða ætlar hún kannski ekki að fæða þetta barn eða hvað?! Ég þorði nú ekki mótmæla því, enda hafði ég jú hugsað mér að koma barninu í heiminn. Læknirinn sprengdi því belginn og í kjölfarið fylgdi rosaleg verkjahrina sem virtist engann enda ætla að taka. Nú fór aldeilis að harðna á hríðunum og virtist engin pása á milli. Þarna missi ég alla stjórn á verkjunum og óttinn tekur algjörlega yfir. Eftir um rúma klukkustund af því, þar sem ég lá og skældi í manninum mínum, athugaði ljósan aftur útvíkkunina. Hún var ennþá 4! Þarna hefði ég getað orgað af vanmátt.

Ljósmóðirin hafði boðið mér mænudeyfingu tvisvar áður og ég neitað, en þarna ákvað ég að biðja um hana. Ég þurfit að bíða í 45-60 mínútur eftir lækninum og voru það lengstu mínútur sem ég hef upplifað. Ég kúgaðist í hverri hríð og lokaði mig af bak við lukt augu. En svo kom loks læknirinn og setti upp blessaða deyfinguna.

Næstu tímar liðu einhvernveginn í smá móðu. Vegna mænudeyfingarinnar hægðist verulega á hríðunum, sem komu nú sjaldnar og vægar. Ég fékk því dripp til að örva hríðarnar þar sem ekkert var að ganga. Litlan fór að detta niður í hjartslætti og fékk ég því súrefni.

Svo kom að því að útvíkkunin var orðin tæpir 10 og ég fór að púla við að koma litlunni í heiminn. Eftir 45 mínútur af rembing var Edward kvennsjúkdómalæknir kallaður til og Andrea barnalæknir. Mér var hent í ístöð og átti að fara að taka litluna með sogklukku. Ég lá þarna ein um tíma og ljósan og Eddi voru að undirbúa eitthvað og maðurinn minn var eitthvað að brasast við myndavélina. Ég var skíthrædd við þessa blessuðu sogklukku og það að láta klippa mig. Allt í einu, þegar enginn var lengur að horfa á mig, fann ég að barnið væri að koma. Læknirinn snýr sér við og hrópar „hún er bara að fæða barnið sjálf“! Eins og hann væri að sjá slíkt í fyrsta sinn. Við það gaf ég allt sem ég átti í rembinginn. Ég var þó orðin ansi mátvana þarna og því ákvað læknirinn að leggjast ofan á magann á mér og skipaði manninum mínum að gera það sama. Við það skaust stúlkan mín loks í heiminn. Hún flaut í raun út með gríðarlegu magni af legvatni… svo miklu að ljósan æpti upp fyrir sig „guð minn eini“.

Þarna var fædd fullkomin lítil stelpa, 51cm og 3800gr (15 merkur), með mikinn lubba. Kom í heiminn klukkan 22:12, tæpum 19 tímum eftir fyrsta verk.

Ég reyndar fékk hana ekki í hendurnar strax þar sem barnalæknirinn þurfti að sjúga uppúr henni og gefa henni súrefni. En lillan var fljótt hin hressasta og orgaði af öllum kröftum.

Fæðing einkasonarins, skrifað sumarið 2010. Heimafæðing.
Þann 16. maí 2010, kl 14.46, fæddist lítill drengur…. 3760 grömm og 51 cm.
Kvöldið áður hafði ég lagt lokahönd á undirbúninginn fyrir komu hans. Ég var komin 40v og 1 dag og var hreinlega búin að ákveða að hann hlyti að fara að láta sjá sig.

Fæðingin byrjaði svo á því að ég missti vatnið yfir allt hjónarúmið klukkan 4.30 um nóttina. Ég vaknaði við einhvern smell og vissi strax að þarna hefði verið að koma gat á belginn. Ég spratt því á fætur og hljóp inn á bað… og skildi eftir mig vænar gusur hér og þar af vatni! Vatnið kom í miklu magni og fósturfita með því. Maðurinn minn staulaðist á fætur og kom á eftir mér inn á bað þar sem ég sat á klósettinu og flissaði af spennu og tilhlökkun.

Stuttu síðar byrjuðu hríðarnar svo að koma. Þær voru strax á svona 2-3 mínútna fresti og urðu sterkari með hverri hríð. Þó urðu þær með lengra á milli af og til næstu tímana, en þó alltaf sterkari og sterkari. Við hjónin dúlluðum okkur hérna heima við að gera allt tilbúið, koma sundlauginn fyrir (sem var búin að þvælast uppblásin um íbúðina í um 2 vikur), búa um hjónarúmið og snúast í fáeina hringi í kringum okkur sjálf. Svo heppilega vildi til að dóttirin hafði fengið gistiboð hjá annarri ömmunni svo ekki þurfti að koma henni í pössun.

Ég ákvað að skella mér stutta sturtu, nota tækifærið þar til að ná áttum yfir því sem væri að fara að gerast. Eftir sturtuna reyndi ég að fá mér morgunmat en kom eiginlega engu niður fyrir spenning. Ég ákvað að hringja í ljósuna klukkan 6:30 og hún kom um 7:30 til okkar. Hún hlustaði á krílið og tékkaði á útvíkkun sem var þá um 4-5 (um klukkan 9/10 held ég). Ég dúllaði mér á boltanum og notaði TENS tækið mitt meðan eiginmaðurinn fyllti á laugina. Ég hafði ákveðið að reyna að hreyfa mig sem mest í hríðunum, nota þyngdaraflið og standa. En í hverri hríð fann ég að mátturinn í fótleggjunum hvarf hreinlega. Ég ákvað því að henda mér í laugina þegar búið var að fylla á hana, sem var bara dásamlegt!

Hríðarnar voru svo orðnar vel sterkar þarna…. var nú reyndar byrjuð að þurfa að humma mig í gegnum þær um 8 leytið. Vatnið hjálpaði samt alveg ótrúlega mikið og held ég að ég hefði ekki getað fætt þetta barn án þess, svo dásamlegt var það!
Við skelltum Friends í tækið og ljósan mín og maðurinn minn horfðu á, ég hlustaði og kíkti svo af og til upp á milli hríða, flissandi.

Ég fór síðan aðeins upp úr lauginni um 11/12 leytið. Ég fann allt í einu þörf fyrir að að kúra mig aðeins ein inni í rúmi og ná smá hvíld inn á milli hríðana. Það var eiginlega alveg ótrúlegt hvað ég fékk mikla orku eftir hálftíma af því. Áður en ég fór fram aftur bað ég ljósmóðirina að athuga útvíkkunina, og var hún um 7.

Ég fór svo aftur ofan í laugina og komst í raun ekki þaðan upp úr fyrr en um hálftíma eftir að drengurinn fæddist! Hríðarnar voru svo sterkar og langar síðustu tímana að ég hálf trúði því varla. Ég notaði óspart kælipoka á bakið og svo þegar þeir hættu að virka þá lét ég manninn minn nudda og þrýsta Fast þar. Ég held að hann hafi verið smá smeykur greyið þar sem ég heimtaði alltaf fastar og fastar! Röddina notaði ég eiginlega mest til að losa um spennu og takast á við hríðarnar. Hummaði og ómaði og purraði (svona hesta purr – manninum mínum fannst það nú reyndar frekar spes!). Það var eins og ég gæti unnið með kraftinum í hríðunum þegar ég gat andað út og gefið frá mér þessi hljóð. Ég passaði líka alltaf að hafa munninn slakan og opinn, axlirnar slakar og bara að allur líkaminn gæfi sig í hverja hríð. Svona eins og leyfa líkamanum að fljóta með öldu, alveg slakur.

Rembingsþörfin fór svo að koma um klukkustund áður en drengurinn fæddist, en bara væg til að byrja með. Ljósan þreifaði aðeins og fann smá brún sem tók smá tíma að fara. Ég þreifaði svo sjálf af og til þar til ég fann að brúnin var farin og hausinn var kominn alveg niður í fæðingarveginn….sem var ótrúlega magnað að finna! Hinn “raunverulegi” rembingur stóð svo í um hálftíma. Ég hefði líklegast komið drengnum fyrr út ef ég hefði ekki verið orðin föst í því að krjúpa á hnjánum, en í þeirri stellingu var ég í mestalla fæðinguna. Ljósan mín náði loks að sannfæra mig um að fara á hliðina (en af einhverjum orsökum fannst mér það vera alveg óyfirstíganleg aðgerð að framkvæma!) og lyfta öðrum fætinum upp. Ég var ekki á því að það væri möguleiki fyrir mig að hreyfa mig nokkuð, fannst þrýstingurinn á grindina og lífbeinið svo yfirþyrmandi. En ég færði mig að lokum og spyrnti í lófann á ljósmóðurinni og drengurinn rann strax neðar og hálfur með hausinn út. Þannig sat hann í 1-2 mínútur…þær lengstu í sögum mannkynsins! Mjög skrítin tilfinning að hafa hann fastan þannig á milli hríða. En loks kom önnur hríð og hann fór með hausinn út, stoppaði aðeins á öxlunum og ljósmóðirin var nokkuð fljót að losa hann. Hann synti svo í heiminn og í fangið á mömmu sinni.

Litli átti smá erfitt með sig fyrst, var með svolítið mikið slím ofan í sér og vankaður eftir stoppið með hálfan hausinn út (var með rauðsprungin augu í um 2-3 vikur eftir fæðinguna). Ljósan saug af og til úr honum og hann var svo fljótur að fara á háa C´ið. Og orgaði alveg á okkur í dágóðann tíma.

Eiginmaðurinn klippti svo strenginn þegar hann var hættur að púlsa og við fórum inn í rúm þar sem beðið var eftir að fylgjan fæddist. Hún kom um klukkustund eftir að drengurinn fæddist og það kom mér svolítið á óvart hversu mikið ég þurfti að hafa fyrir henni. Bölvaði alveg hríðunum í sand og ösku sem fóru í gang þá! En hún kom út og var ótrúlega flott.

Ég eiginlega trúði ekki hversu mikill kraftur gæti verið í hríðum áður en þessi fæðing byrjaði, enda fékk ég mænudeyfingu síðast. Fannst vatnið alveg gera kraftaverk og svo það að nota röddina…… nágrönnunum örugglega til mikillar gleði

Séð nú:
Ég vildi að ég hefði verið upplýstari fyrir fyrri fæðinguna (um fæðingarferlið og náttúrulegar verkjastillingar), haft ljósmóðir sem að hefði haft önnur ráð en mænudeyfingu og verið öruggari með sjálfa mig, fæðingarferlið og rétt minn til að velja og hafna. Fæðingin fór sem betur fer mjög vel að lokum, en mér fannst ég alltaf svo máttvana eitthvað og hrædd. Framkoma læknisins var hrokafull og ljósmóðirin var frekar köld og fjarræn. Dagana á eftir leið mér eins og keyrt hafi verið yfir mig, bæði líkamlega og andlega. Allt þar til ég fór að undirbúa fæðingu stráksins míns fannst mér fyrri fæðing mín frekar óþægileg minning og var mjög ósátt við hana.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst kærri vinkonu minni sem er Doula, en hún fræddi mig ótrúlega mikið um jákvæðar og fallegar fæðingar. Í kjölfarið hellti ég mér í lestur um náttúrulegar fæðingar og úr varð þessi dásamlega heimafæðing sonar míns.

Eftir að hafa farið í gegnum báðar fæðingarsögurnar mínar, skoðað minn hlut og annarra hlut í þeim, þá hef ég áttað mig á ýmsu. Til að mynda það að ég ber ábyrgð á minni eigin fæðingarreynslu. Ég varð að sjá um að fræða mig. Ég varð að taka ábyrgð á tilfinningum mínum, ótta mínum. Ég varð að treysta, sjálfri mér, líkama mínum og þeim sem fara í gegnum ferlið með mér. Einnig uppgötvaði ég hvað stuðningur getur breytt miklu fyrir hina fæðandi konu. Án hans hefði ég líklega týnst í hríðunum. Það að geta litið upp í augu ljósmóðurinnar minnar og séð öryggið þar, skilninginn og traustið, það breytti öllu.

  • Flokkar