Draumafæðingin mín

Að kvöldi 25.október sl. fór ég í afmæli til tengdó. Hún var með brauðrétti, marengs o.fl. á boðstólnum. Um nóttina vaknaði ég með niðurgang og tengdi það við matinn í afmælinu. Um morguninn vaknaði ég á milli níu og tíu ennþá aðeins með í maganum. Ég lá bara uppí rúmi og nennti ekki á fætur. Fljótlega fór ég að taka eftir því að ég var að fá smá seiðandi verki neðst í kviðinn sem stóðu yfir í smá stund í senn.

Ég kallaði til mannsins míns sem var á leiðinni í skólann að hafa kveikt á símanum, mér grunaði að e-ð væri í gangi. Samt trúði ég því eiginlega ekki og ekki hann heldur – ég var aðeins gengin 37 vikur og 6 daga. Ég gekk með dóttur okkar sem er nú 20 mánaða í 42 vikur plús einn dag og ég var að búast við jafn langri meðgöngu aftur.

Rúmlega tíu hringdi ég í mömmu og sagði henni hvernig mér liði. Hún vildi að ég hringdi strax niðrá Hreiður og í manninn minn. Ég hringdi niðrá Hreiður og lýsti því hvernig mér leið. Sú sem ég talaði við sagði að ég ætti að sjá til í svona klukkutíma og ef að verkirnir yrðu harðari og reglulegri ætti ég að koma í skoðun til þeirra. Hún sagði líka að svona niðurgangur gæti orsakað fyrirvaraverki sem gætu gengið til baka. Ég fór að taka tíman á því hve lengi var á milli verkja og hversu lengi þeir stóðu yfir. Mér fannst samt rosalega erfitt að einbeita mér við það. En verkirnir virtust vera í um 20-40 sek og svona 5-8 mín á milli – frekar óreglulegt.

Ég hringdi svo í kallinn rúmlega 11 og sagði honum að við þyrftum að fara niðrá Hreiður að láta kíkja á mig. Hann kom heim og ég sagði honum að taka til dótið í tösku sem að maður á að hafa með sér s.s. föt á barnið o.s.frv. Við vorum alls ekki tilbúin með allt eins og ég var búin að sjá fyrir mér. Á leiðinni í bílnum var ég algjörlega komin í minn eigin heim. Ég var eins og í hálfgerðri vímu og leið mjög vel – ég söng og kyrjaði þegar að verkirnir komu og notaði öndunina. Hann var að spila Jet Black Joe og ég fór alveg inní tónlistina. Á þessum tímapunkti vissi ég að þetta var að fara að gerast og ég var mjög róleg og leið vel yfir því.

Þegar við komum á Hreiðrið tók ljósmóðir á móti mér sem að ætlaði að skoða mig. Ég nennti ekkert að láta skoða mig og horfði með hrylling á bekk sem að konur eru skoðaðar á og spurði “þarf ég að fara upp á þennan bekk”. Ég vildi bara komast í bað og það strax og halda áfram að vera í mínum eigin heimi. Þarna var orðið styttra en 5 mínútur á milli hríða og þær orðnar frekar sársaukafullar. Ljósmóðirin sá hvert stefndi og sagði mér að koma bara inn í fæðingarherbergið og ætlaði að láta renna í baðið fyrir mig. Þannig að sem betur fer slapp ég við að klifra upp á þennan skoðunarbekk.

Mér fannst alveg dásamlegt að hafa dagsbirtu í herberginu. Einhvern vegin var ég búin að sjá fyrir mér að það yrði myrkur úti og herbergið lýst upp með rafmagnsljósum. Ég lagðist í rúmið í herberginu þar sem að ljósan skoðaði mig. Ég var komin með 3 í útvíkkun. Hún sagði mér að bíða aðeins með að fara í baðið af því að hríðarnar ættu það til að detta niður þegar í baðið væri komið. Enn styttist á milli hríða og verkirnir urðu mun verri. Ég grátbað um að komast í baðið. Hún athugaði útvíkkun aftur sem var orðin 5. Þannig að á 10 mín hafði útvíkkunin farið úr 3 upp í 5. Ljósan sagði að þetta væri að gerast alveg svakalega hratt og hleypti mér loks ofan í baðið.

Það var dásamlegt að komast í baðið og verkirnir urðu miklu mýkri – allt annað líf. Ég andaði djúpt og
kirjaði þegar hríðarnar komu. Ljósan spurði mig hvort ég hefði íhugað það að fæða í vatni. Ég sagði henni að draumafæðingin mín væri einmitt að fæða í vatni. Nú urðu verkirnir enn verri og það styttist á milli. Ætli ég hafi ekki verið í svona u.þ.b. 20 mín eða í mesta lagi hálftíma í baðinu áður en kollurinn fór að sýna sig. Í síðustu hríðunum kom rembingsþörfin og voru þær alveg svakalega sársaukafullar og ég öskraði eins og stunginn grís af öllum kröftum. Ljósan sagði mér að rembast bara létt með til þess að passa spöngina. Litli snáði kom svo í þremur hríðum rétt rúmlega hálf tvö. Það hafði liðið klukkustund og korter síðan að ég gekk inná spítalann. Elsku drengurinn kom í heiminn í vatni og dagsbirtu og ég hafði enga deyfingu þegið. Þetta var alveg eins og ég hafði séð fyrir mér draumafæðinguna. Mikið var ég ánægð. Það þarf helling hugrekki til að takast á við þetta.

Við fengum að tjilla inná Hreiðrinu öll saman – kallinn setti Jet Black Joe aftur á – stemmningin var létt og skemmtileg. Litli kútur var algjör draumur í dós. Hann var viktaður og mældur og reyndist vera 13 merkur og 51 cm – bara flott stærð miðað við frekar stutta meðgöngu. Ég fór í sturtu og svo vorum við færð um herbergi. Um kvöldið vorum við útskrifuð og vorum komin heim um níuleitið.

Það var mjög súrealískt að fara uppá spítala um hádegi og koma heim um kvöldið sama dag með glænýjann lítinn einstakling. Litla snúllan okkar var í gistingu hjá ömmu sinni en fékk að hitta bróður daginn eftir. Hún hló og brosti þegar hún sá hann fyrst. Upp kom smá afbrýðisemi þegar ég lagði hann á brjóst en þá lyfti pabbi hennar henni upp á sófabrúnina til mömmu sinnar þannig að hún gat kúrt sig hjá okkur á meðan á brjóstagjöfinni stóð – þá var allt í góðu lagi, hún vildi bara fá að vera með þessi elska.

Nú er ég hamingjusöm tveggja barna móðir – Er ekki lífið yndilegt? ♥
Yogaiðkunin hafði svakalega jákvæð áhrif á mig og fæðingin hefði aldrei gengið jafn vel ef það hefði ekki verið fyrir hana. Ég var mjög dugleg að anda og kirja og ljósan spurði mig hvort ég hefði verið í yoga – þegar ég svaraði já þá hálfpartinn hló hún bara og sagði að það væri augljóst.
Enda var ég á tímabili eins og einhver afdala Indjánahöfðingi með friðarpípuna týndur í tíma og rúmi.

Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

  • Flokkar