Tvær sjúkrahúsfæðingar og tvær heimafæðingar að baki

Hér á eftir læt ég fylgja þrjár af fæðingarsögunum mínum. Seinni sjúkrahúsfæðinguna mína og báðar heimafæðingarnar.

Seinni sjúkrahúsfæðingin mín

Þegar ég var gengin 40 vikur sléttar samkvæmt mínu tali byrjuðu fyrstu verkirnir. Klukkan var rétt rúmlega miðnætti og kominn föstudagurinn þrettándi. Ég átti von á mínu öðru barni.

Stuttu eftir að fyrsti verkur kom fór slímtapinn og verkirnir urðu strax reglulegir og harðir svo ég lét vita á fæðingardeildinni að ég kæmi um nóttina.Ég var heima til kl að verða hálf þrjú og gekk um og vaggaði mjöðmum og beið þess að fara á fæðingardeildina. Fyrsta fæðingin mín tók 10 tíma frá fyrsta verk og ég bjó mig undir svipaðan tíma núna.

Þegar við komum á sjúkrahúsið tók á móti okkur eldri ljósmóðir og var hún ein á vaktinni ásamt sjúkraliða.
Engin önnur kona lá á deildinni og ég óskaði þess að vera bara með ljósmóður og manninn minn í fæðingunni.
Í minni fyrstu fæðingu hafði ég fengið verkjalyfjasprautu sem ég varð mjög veik af og prófaði gasið sem virkaði ekki fyrir mig svo ég lét ljósmóðurina vita að ég vildi engin verkjalyf en myndi þiggja leiðbeiningar um verkjastillandi aðferðir sem fælu ekki í sér lyf. Ég fékk nudd, heita og kalda bakstra og þar sem verkirnir voru miklir í baki var mér ráðlagt að vera á fjórum fótum sem ég gerði og tók það verkinn vel úr bakinu.

Þetta var fyrir mörgum árum og ekki komið stórt baðkar á fæðingarstofuna en minna baðkar var til á deildinni og vildi ég prufa það en ljósmóðirin samþykkti það ekki og heldur ekki að ég notaði sturtuna til verkjastillingar, sagði baðkarið svo lítið og að það væri bara bras að nota sturtuna. Ég vildi ekki vera bundin við mónitor svo það var bara hlustað reglulega eftir hjartslætti barnsins. Rétt tæpum fimm tímum eftir fyrsta verk ákveður ljósmóðirin að sprengja hjá mér belginn og gerir það án þess að útskýra sérstaklega fyrir mér af hverju og þegar því er lokið spyr hún mig hvort ég ætli að fæða í þessari stöðu. Þá var komin nánast full útvíkkun þegar hún sprengir belginn, og hugsanlega hefði barnið fæðst í líknarbelgnum, sigurkufli, ef þetta inngrip hefði ekki komið til.

Ég fór uppá hnén og höfðagaflinn á rúminu var settur upp og þannig remdist ég nokkra rembinga. Ég vildi ekki hafa skoðunarljósinu beint að barninu þegar það myndi koma út en fékk engu um það ráðið og kallaður var út aðstoðarlæknir sem kom nývaknaður japplandi á tyggjói og settist í stól og horfði á barnið fæðast. Drengurinn fæddist í tveim hríðum 4 klst og 57 mín eftir fyrsta verk og var skilið á milli strax því naflastrengurinn var svo stuttur að ég gat illa snúið mér til að taka barnið upp. Drengurinn fór svo til strax á brjóst og ljósmóðirin sá svo um að baða og klæða drenginn. Við fórum svo heim innan 36 tíma og fengum heimaþjónustu ljómóður.

Hugleiðingar mörgum árum síðar:
Fyrst eftir fæðinguna var ég mjög sátt við hana en eftir því sem ég hef lesið mér meira til um fæðingar og réttindi sjúklinga hugleiði ég oft hversu litlu ég fékk í raun ráðið í fæðingunni. Ég t.d. fékk ekki að nota baðkar né sturtu, fékk ekki að dempa ljósin, fékk engu um það ráðið hvort aðstoðarlæknir væri viðstaddur og það lá á að baða og klæða barnið áður en vaktin væri búin. Belgurinn var rofinn án útskýringa og það hefur kannski sært mig mest því það hefði verið ólýsanleg upplifun að eignast barn í sigurkufli.

En það sem mestu skiptir í þessari fæðingarsögu eins og þeim öllum er að ég fæddi heilbrigt barn.En þessi fæðing styrkti mig mikið í þeirri ákvörðun að eiga næstu börn heima þar sem ég væri við völd.

Fyrri heimafæðingin mín

Ég hafði sterklega á tilfinningunni hvaða dag ég myndi fæða og gekk það eftir. Á fullu tungli og á afmæli frænku minnar, eftir góðan svefn, heyrði ég skrítin smell í bumbunni, neðarlega og dreif mig fram á snyrtinguna. Þar byrjaði vatn að buna niður svo ég kallaði á manninn minn og sagði að ég héldi að vatnið væri farið. Í fyrri fæðingunum tveim hafði belgurinn verið sprengdur svo við náðum okkur í pinna í ljósmóðurtöskuna til að sannreyna að þetta væri legvatn og pinninn litaðist svartur sem staðfesti að þetta væri legvatnið. Meðgöngulengd 39+3, þriðja meðganga.

Við urðum voðalega spennt eðlilega og létum foreldra okkar og ljósmóðurina vita og bjuggumst við að fá barn í hendurnar um hádegi. Vatnið bunaði reglulega niður og við hlógum bara og drifum í að setja hreint á rúmið og vögguna og græja fyrir fæðinguna og meðal annars var laugin blásin upp og sett í hana vatn.

Verkirnir byrjuðu ekki fyrr en kl að verða 10 og voru óreglulegir, 7-14 mín á milli en nokkuð harðir þó. Við hlustuðum hjartsláttinn hjá barninu reglulega og hann var alltaf góður. Ljósmóðirin kom um kl 14 og þar sem verkirnir voru ekki orðnir reglulegir ákváðum við að setja nálar í fæturnar til að hvetja fæðinguna áfram og eina í höfuðið. Svo fór hún og við áttum að kalla á hana þegar eitthvað færi að gerast.

Stuttu seinna byrjuðu hríðirnar að harðna og verða reglulegar. Þá komu tengdaforeldrar mínir og færðu okkur bakkelsi og tertu sem var afar kærkomið því við vorum ekki búin að undirbúa neinn mat. Um kl 15.30 kom ljósmóðirin aftur því ég vildi fá nálar í bakið sem veittu mjög góða verkjastillingu. Ég var mikið í lauginni sem einnig veitti góða verkjastillingu.
Verkirnir voru þó enn að framan og niður lærin. Maðurinn minn nuddaði mig í gegnum verkina og ég hálf söng eða hummaði mig í gegnum þá.

Kl 17.30 breyttust verkirnir, lengri hvíld á milli og ég fann rembing og mátti byrja að rembast. Ég lagðist upp í rúm og á hlið og fór svo að rembast af alvöru um kl 18.30 og pabbinn sá þegar efsti hluti kolls kom út, svo augun, nefið og spýttist úr því legvatn og restin af höfði. Ég fann hvernig barnið snéri sér og við biðum eftir næstu hríð í 3 mín, þá kom skrokkurinn út kl 19.05. Ljósmóðirin  hjálpaði aðeins til, en pabbinn tók svo barnið út um leið og axlirnar komu út og lyfti upp til mín.

Ég sá strax að þetta var strákur og hann hóstaði aðeins og leit svo í kringum sig, grét ekki neitt. Allur útataður í fósturfitu. Pabbinn klippti á strenginn og svo kom fylgjan bara nánast strax. Naflastrengurinn var randstæður. Drengurinn fékk 9 í fyrri apgar og 10 í seinni apgar og fór svo strax á brjóst. Eldri börnin komu svo að sjá og fengu að taka af honum handklæðið til að sjá kynið, svo ömmur og afar. Drengurinn var svo vigtaður og mældur með alla í kring og þá byrjaði hann að gráta í fyrsta sinn. Og mikið var gott að gæða sér á bakkelsi og tertum þegar búið var að ganga frá.

Seinni heimafæðingin mín

Ég hafði sterkan grun um að ég myndi fæða 2 vikum fyrir áætlaðan dag og það stóðst. Ég vaknaði upp snemma morguns og lá aðeins hugsi. Pabbi minn átti afmæli þennan dag og það var fullt tungl um kvöldið og um kl.5.50 heyrði ég kunnulegan smell í bumbunni og þegar ég er komin fram á snyrtinguna  byrjaði legvatnið að buna niður, tært og fínt.  Við áttum að mæta í mæðraskoðun kl 11 þennan morgun og vissum ekki hvort barnið væri skorðað svo maðurinn minn hringdi í ljósmóðurina okkar og ég var send uppí rúm til að bíða eftir henni.

Hún kom stuttu seinna og staðfesti að kollurinn væri vel skorðaður svo ég gat farið á fætur. Við ákváðum að þar sem ég hefði enga verki myndum við bara hafa samband við hana þegar eitthvað færi að gerast, annars kæmi hún kl 14.30 og myndi setja í mig nálar.

Börnin fóru í skóla og leikskóla og ég hellti uppá sterkt hindberjalaufste, sauð vatn í potti og setti lavender ilmkjarnaolíu útí, setti góða tónlist á og beið eftir verkjum. Fékk nudd með clary sage og lavender olíum, tók Arnicu remedíu og við bara tókum því rólega, settum utan um vögguna og svona. Um hádegi nuddaði maðurinn minn punkta á fótunum til að örva óreglulegar hríðir og fékk ég smá verki eftir það. Kl 14.30 kom ljósan og skoðaði mig, setti í mig nálar og eins og í síðustu fæðingu þá komu reglulegir verkir uppfrá því. Hún fór heim og við ákváðum að vera bara í bandi. Verkirnir voru strax á 3 mín fresti, ég átti von á bakverkjum og hafði ákveðið remedíur við þeim og nálar en verkirnir komu allir að framan og niður lærin.

Mér fannst mjög gott að fara yfir lavenderpottinn í verk og anda að mér gufunni meðan ég var nudduð. Klukkan hálf sex kom ljósmóðirin aftur að skoða mig og ég ákvað að fara í fæðingarlaugina eftir það. Laugin var um 35-36°, ég fann strax mikinn mun á verkjunum en þeir minnkuðu til muna. Ég fór nokkrum sinnum uppúr og stóð þá mikið á tám og fannst okkur það góðs viti um að útvíkkun gengi vel. Ég tóna/humma mig í gegnum verkina, liggjandi á hlið í myrkvuðu rými með róandi tónlist á í hálfgerðum trans. Ég bað svo manninn minn um að koma ofaní því verkirnir voru orðnir mjög harðir og ég vildi nudd og það hjálpaði mjög mikið.

Við stefndum á skoðun kl 19:30 en rétt fyrir 19 fannst mér verkirnir breytast snögglega og þegar ljósmóðirin skoðar mig í lauginni kemur í ljós að höfuðið er langt gengið niður, útvíkkun lokið og tími til kominn að kalla á aðstoðarljósmóðurina. Á klukkutíma fór útvíkkun úr 4 í 10. Ég mátti byrja að rembast.

Ég fann hvernig höfuð barnsins færðist neðar en svo vildi ég fara uppúr, vildi eiga á landi og uppúr fór ég og uppí rúm, lagðist á bakið/hliðina og enn í hálfgerðum trans remdist ég og fylgdi takti líkamans og fylgdi höfðinu niður.
Ég þurfti ekki að rembast mikið, hríðarnar voru mjög sterkar og ég fann hvernig þetta gekk allt „rétt“ ég var lítið meðvituð um það sem var að gerast í kringum mig og þegar var talað við mig bara lokaði ég augunum, ég var að vinna.
Höfuðið kom út og horfði barnið beint niður og runnu axlirnar út svo til strax, pabbinn tók undir barnið og barnið rann út. Ljósmóðirin kom aldrei við barnið, bara pabbinn, hún sagði honum bara til. Aðstoðar ljósmóðirin tók myndir af öllu saman.

Maðurinn minn skellti uppá mig pínulitlu barni kl 19.19, algjörlega þöktu í fósturfitu og ég var ekki enn að trúa þessu. Eftir smástund kíktum við á kynið og það var stúlka. Fylgjan kom 6 mín síðar, heil og fín og ekki mjög stór. Eldri systkinin voru komin eftir rúman hálftíma að skoða og svo afar, ömmur og ein mágkona mín voru viðstödd meðan stúlkan var vigtuð og mæld.

Eins og í fyrri fæðingunni beið okkar dýrindis bakkelsi og terta að fæðingu lokinni.

  • Flokkar